11 Júlí 2014 12:00
Fyrr í vikunni var greint frá ónæði sem stundum vill fylgja garðslætti, en lögreglu berast iðulega kvartanir þegar slegið er seint á kvöldin, á nóttunni og eldsnemma á morgnana. En það er fleira sem er kvartað undan heldur en hávaði frá sláttuvélum. Gleðskapur í heimahúsum er oft til ama fyrir nágranna og svo var í nokkrum tilvikum í nótt, en lögreglan leysti upp samkvæmi í miðborginni þar sem háreysti gesta hélt vöku fyrir nágrönnum. Í sama hverfi var kvartað undan vegaframkvæmdum um miðnætti og var þeim sem að því stóðu gert að hætta vinnu svo fólk fengi svefnfrið. Sem fyrr hvetur lögreglan fólk til að sýna tillitssemi og forðast að vera með hávaða sem kann að valda ónæði eða raska næturró manna.