8 Mars 2007 12:00

Piltur um tvítugt skarst illa á hendi þegar hann sló í gegnum rúðu í íþróttahúsi á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld. Pilturinn tók þar þátt í kappleik en liðið hans beið lægri hlut. Hann átti erfitt með að taka ósigrinum og lét reiði sína bitna á rúðunni með fyrrgreindum afleiðingum. Pilturinn var fluttur á slysadeild en hann má búast við því að fá sendan reikning fyrir rúðunni sem hann braut.

Annar íþróttamaður, sextán ára piltur, var fluttur á slysadeild eftir slæma byltu í Bláfjöllum um kvöldmatarleytið. Sá var á snjóbretti með félögum sínum þegar óhappið varð. Pilturinn lenti illa á bakinu og rak jafnframt höfuðið í jörðina í fallinu. Pilturinn var ekki með hjálm.

Konu á níræðisaldri var sömuleiðis komið undir læknishendur en hún datt illa í austurborginni síðdegis. Óttast var að kona hefði rifbeinsbrotnað. Karlmaður á svipuðum aldri var einnig fluttur á slysadeild í gærmorgun. Hann slasaðist í miðborginni en ekki er vitað um tildrög þess.