9 Mars 2007 12:00
Fertug kona lenti í umferðaróhappi á Kringlumýrarbraut í hádeginu í dag. Hún slasaðist ekki en í kjölfarið var konan flutt á lögreglustöð þar sem grunur lék á að hún væri undir áhrifum lyfja. Sama kona var stöðvuð við akstur í Lönguhlíð síðdegis í gær en þá þótti einsýnt að hún væri undir áhrifum lyfja. Aksturslag hennar var stórhættulegt en konan virtist vera við það að sofna þegar að var komið. Hún var færð á lögreglustöð þar sem læknir úrskurðaði að konan væri óhæf til aksturs.
Og meira af hættulegum ökumönnum. Um kaffileytið í dag var ekið á tvo kyrrstæða bíla í austurborginni. Tjónvaldurinn í báðum tilvikum, karlmaður á fertugsaldri, hvarf af vettvangi en hann fannst skömmu síðar. Maðurinn var ölvaður. Klukkutíma síðar komu lögreglumenn að leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og tóku þar annan ölvaðan ökumann. Þar var á ferð fertug kona sem hugðist sækja barn sitt í leikskólann og aka því heimleiðis.