27 Ágúst 2007 12:00

Karl um fertugt var tekinn í tvígang fyrir ölvunarakstur á laugardag. Fyrst var hann stöðvaður í Kópavogi árla morguns og færður á lögreglustöð en sleppt nokkru síðar. Ekki lét maðurinn sér segjast og tók til við drykkju og axarsköft á nýjan leik og settist aftur ölvaður undir stýri um kvöldmatarleytið. Seinni ökuferðin stóð þó stutt yfir en maðurinn var stöðvaður á Sæbraut í enn verra ástandi en fyrr. Hann nánast valt út úr bílnum og átti í miklum erfiðleikum með að standa í fæturna. Hann var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða á staðnum og var síðan látinn sofa úr sér áfengisvímuna í fangageymslu lögreglunnar.

Átta aðrir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn þeirra er karl á fimmtugsaldri en með honum í bíl voru barn hans og barnabarn.