19 Október 2006 12:00

Karlmaður á miðjum aldri var tekinn tvívegis í gær fyrir að hafa ætluð fíkniefni í fórum sínum. Lögreglan í Reykjavík hafði fyrst afskipti af manninum í miðborginni í gærkvöld og svo aftur í nótt. Hann var þá enn staddur á svipuðum slóðum en aðeins liðu fáeinir klukkutímar á milli þess sem lögreglan stöðvaði för hans. Eftir seinna tilvikið var maðurinn fluttur á lögreglustöð.

Að auki hafði lögreglan afskipti af fjórum öðrum karlmönnum í gær og nótt en í fórum þeirra allra fundust ætluð fíkniefni. Mennirnir eru á aldrinum 25-40 ára. Þá fann lögreglan ætluð fíkniefni á tveimur stöðum í borginni og voru þau haldlögð.