16 Maí 2007 12:00

Nokkur óskyld þjófnaðarmál eru til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir gærdaginn. Hálffertug kona var tekin fyrir þjófnað á ýmsum smávörum í Smáralind en með henni í för var karlmaður á fimmtugsaldri. Sá var með golfkylfu í fórum sínum og var hún haldlögð. Maðurinn gaf þá skýringu að hann væri þeirra erinda að kaupa golfbolta og hann vildi vera viss um að þeir pössuðu við kylfuna. Í sömu verslunarmiðstöð var 28 ára karlmaður tekinn fyrir að stela snyrtivörum. Sá notaði hníf til að gera þjófavörnina á umbúðunum óvirka. Hnífurinn var haldlagður. Í Vesturbænum voru tveir 16 ára piltar staðnir að hnupli í matvöruverslun og í Breiðholti stálu karlmaður á fertugsaldri og kona um tvítugt DVD ferðaspilara frá bensínstöð. Á öllum fyrrnefndum stöðum eru öryggismyndavélar og náðust góðar myndir af hinum fingralöngu. Í nótt var tilkynnt um innbrot í íbúð í Breiðholti. Húsráðandi saknaði raftækja en þjófsins er enn leitað.