9 Ágúst 2006 12:00
Nokkur þjófnaðarmál komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík í gær. Kona var handtekin síðdegis en í fórum hennar fannst töluvert af varningi sem hún gat ekki gert grein fyrir. Þetta reyndust vera vörur úr nokkrum fyrirtækjum og var þeim skilað aftur til réttra eigenda. Lögreglan hafði afskipti af nokkrum þjófum til viðbótar sem tóku hluti ófrjálsri hendi í verslunum en þeir voru þó ekki eins stórtækir og konan sem áður er getið.
Fjármunum var stolið á gistiheimili í borginni og þá var farið inn í bílskúr og verðmæti höfð á brott. Einnig var farið inn í íbúð í vesturbænum og þaðan er einhverra tækja saknað. Lögreglan vill árétta að fólki gangi ávallt tryggilega frá heimilum sínum þegar haldið er á brott. Mikilvægt er að muna eftir að læsa hurðum og loka gluggum.