23 Janúar 2007 12:00

Nokkrir þjófar komu við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Veski var stolið á opinberri stofnun um miðjan dag en tvítug kona, sem er grunuð um þjófnaðinn, var flutt á lögreglustöð vegna málsins. Skömmu síðar fór lögreglan að gististað í borginni vegna gests sem ekki gat greitt fyrir þjónustuna. Á öðrum gististað var tveimur veskjum stolið en þjófsins er enn leitað. Þá voru tveir unglingspiltar teknir fyrir hnupl í Hafnarfirði og Garðabæ. Annar stal hreinlætisvörum en hinn sælgæti.

Verkfæri voru tekin úr gámi í Hafnarfirði og jólaskrauti og bensínkorti var stolið úr bíl í Kópavogi. Þá var tilkynnt um innbrot í bíl í Garðabæ en ekki er vitað hvað hvarf úr honum. Eldsneyti var stolið frá þremur bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu í gær en töluvert er um þá hvimleiðu iðju. Einn bensínþjófanna náðist fljótlega en hann var látinn gera upp skuldina hið snarasta.