31 Ágúst 2009 12:00
Karl á fimmtugsaldri var handtekinn í borginni eftir hádegi í gær en maðurinn stal þremur lambalærum úr matvöruverslun. Síðdegis var kona á þrítugsaldri handtekin í matvöruverslun í Hafnarfirði en hún stal seðlaveski af viðskiptavini verslunarinnar. Konan reyndist hafa ýmislegt fleira á samviskunni og þykir víst að hún hafi farið í nokkrar ránsferðir um helgina. Önnur kona, sem er á fertugsaldri, var handtekin fyrir þjófnað í verslun í Kópavogi. Talið er að hún hafi haft sama háttinn á en konan er grunuð um að hafa stolið bæði fatnaði og snyrtivörum úr nokkrum verslunum. Í Smáralind voru þrjár unglingsstúlkur gómaðar en þær höfðu þá stolið fatnaði úr þremur verslunum. Þrír unglingsspiltar voru staðnir að hnupli í verslun í miðborginni og tveir jafnaldrar þeirra voru teknir í austurborginni, en þeir voru líka að stela úr verslun. Á öðrum stað í borginni fór par á miðjum aldri út úr matvöruverslun með innkaupakerru fulla af mat án þess að greiða fyrir hann. Í Smáralind reyndu þrír karlar og ein kona að stela vörum úr tveimur verslunum en afgreiðslufólkið sá við þeim og endurheimti vörurnar.