26 Apríl 2011 12:00

Karl á fertugsaldri og kona á þrítugsaldri voru handtekin í tvígang fyrir þjófnað og innbrot í Hafnarfirði á laugardag. Fyrst voru þau handtekin snemma morguns eftir að hafa stolið GPS-tæki og fleiri verðmætum úr ólæstum bílum. Hinum stolnu munum var komið aftur í réttar hendur og fólkinu síðan sleppt eftir að málið taldist upplýst. Þjófarnir létu sér hinsvegar ekki segjast og héldu uppteknum hætti og brutust inn í bíl á öðrum stað í bænum þegar nokkuð var liðið á daginn. Karlinn og konan voru því handtekin á nýjan leik en í fórum þeirra fundust illa fengnir munir úr fyrrnefndum bíl.