25 Janúar 2007 12:00
Nokkrir þjófar voru handteknir í Reykjavík í gær og nótt. Tveir karlar og unglingsstúlka voru handtekin í austurborginni í gærkvöld en þau voru á stolnum bíl. Í fórum annars mannsins fundust einnig munir sem hann gat ekki gert grein fyrir. Þá voru tveir unglingspiltar handteknir í Breiðholti í nótt en þeir eru grunaðir um innbrot í leikskóla.
Þrír unglingar voru staðnir að hnupli í tveimur verslunum í borginni um miðjan dag. Nokkru áður var hálfþrítugur karlmaður færður á lögreglustöð en hann hafði orðið uppvís að þjófnaði í austurborginni. Sami maður kom svo aftur við sögu hjá lögreglu í nótt en þá var hann gripinn í einni af sundlaugunum. Með honum í för var kona á svipuðu reki en ekki er vitað hvort tilgangur þeirra var að fá sér sundsprett eða að komast yfir verðmæti.
Þá var 18 ára piltur tekinn með fölsuð skilríki í áfengisverslun. Pilturinn hugðist kaupa áfengi en starfsmaður átti bágt með að trúa að þessi viðskiptavinur væri kominn vel á þrítugsaldur eins og skírteinið sagði til um. Ekkert varð af viðskiptunum og pilturinn verður að bíða tvö ár enn til að kaupa áfengi.