30 Apríl 2009 12:00

Mennirnir fjórir sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitaði að og lýsti eftir vegna ítrekaðra tilrauna til innbrota í hraðbanka og verslanir undanfarna daga voru handteknir í gær. Þrír mannanna voru handteknir í Leifsstöð þegar einn þeirra var á leið úr landi og sá fjórði gaf sig fram við lögreglu. Mennirnir eru allir af erlendu bergi brotnir.

Einn mannanna verður færður í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem krafist verður farbanns á hann vegna rannsóknar lögreglunnar á Selfossi á innbroti í hraðbanka í Hveragerði fyrir skömmu. Ekki er útilokað að fleiri kunni að verða handteknir á næstunni vegna þessa.

Lögreglan vill þakka fjölmiðlum og almenningi sérstaklega fyrir aðstoðina, en myndbirting og umfjöllun hinna fyrrnefndu og góð viðbrögð þeirra síðarnefndu gaf af sér fjölda upplýsinga er leiddu til handtöku mannanna. Þá er ástæða til að beina þeim tilmælum til fólks að verði því boðið til kaups af ókunnugum t.d. nýjar snyrtivörur og skartgripi að tilkynna slíkt hiklaust til lögreglu í síma 444 1100.