21 Desember 2006 12:00

Ekkert lát virðist vera á þjófnaðarmálum þessa dagana og ljóst að afgreiðslufólk í verslunum verður að vera vel á verði í jólaösinni. Því miður eru óprúttnir aðilar á ferðinni en þeir eru á ýmsum aldri, jafnt karlar sem konur.

Nokkur þjófnaðarmál komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík í gær. Tveir tólf ára piltar voru teknir fyrir þjófnað í matvöruverslun í úthverfi um miðjan dag. Hringt var í foreldra þeirra sem komu og sóttu piltana. Myndavélum og símum var stolið úr fyrirtæki í miðbænum en þjófurinn er ófundinn. Um kvöldmatarleytið var 18 ára stúlka tekin fyrir þjófnað í verslunarmiðstöð og nokkru síðar var lögreglan kölluð til annars staðar í borginni. Þar höfðu tvær konur á þrítugsaldri tekið bækur ófrjálsri hendi. Þeim var gert að skila bókunum.

Geislaspilara var stolið úr bíl í austurbænum og þá var tilkynnt um tvö innbrot í heimahús í úthverfum. Á öðrum staðnum hurfu verkfæri en á hinum söknuðu húsráðendur sjónvarps og leikjatölvu. Í miðborginni var brotist inn í geymslu og þaðan stolið fatnaði.