14 Desember 2006 12:00

Talsvert er um þjófnaði í verslunum þessa dagana og lögreglan í Reykjavík hvetur afgreiðslufólk enn og aftur til að vera á varðbergi. Nokkur slík mál komu til kasta lögreglunnar í gær. Unglingspiltur reyndi að stela síma úr verslun í austurbænum um miðjan dag í gær. Hann náðist og skilaði símanum. Innan við klukkustund síðar var sami piltur staðinn að þjófnaði í annarri verslun á svipuðum slóðum. Þar var hann í félagi við annan ungling en báðir reyndu að komast undan með matvæli.

Síðdegis var 11 ára strákur staðinn að hnupli í úthverfi og nokkru síðar var tæplega fertug kona tekin fyrir þjófnað á snyrtivörum annars staðar í borginni. Þá var pósti stolið úr fjölbýlishúsi og enn einn bensínþjófurinn skaut upp kollinum. Sá síðastnefndi bar við minnisleysi þegar til hans náðist. Kvaðst þó ætla að koma á bensínstöðina og borga skuldina hið snarasta.