18 Janúar 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst þjófnað, sem átti sér stað í búningsherbergi í íþróttahúsi í Kópavogi fyrr í vikunni. Þar fóru þjófar um ránshendi og stálu níu farsímum, flestum af gerðinni Iphone 4, en lætur nærri að samanlagt verðmæti þeirra sé um ein milljón. Lögreglunni tókst að endurheimta símana í gær og var þeim komið óskemmdum aftur í réttar hendur. Það voru fimleikastúlkur í Gerplu sem urðu fyrir þessari óskemmtilegu reynslu, en þær voru að sjálfsögðu himinlifandi þegar lögreglan afhenti þeim símana á nýjan leik.