5 Febrúar 2009 12:00
Talsvert er um að vörum sé stolið úr verslunum þessar vikurnar. Nokkur hnuplmál komu til kasta lögreglunnar í gær en í Smáralind voru þjófar staðnir að verki í þrígang. Í Kringlunni var líka þjófur gripinn glóðvolgur en fólk virðist girnast varning af ýmsu tagi. Í gær voru það einkum snyrtivörur sem freistuðu þjófanna. Þá var handtösku stolið frá konu sem var að störfum í húsi við Laugaveg. Í töskunni voru m.a greiðslukort hennar, ökuskírteini og sími. Þjófarnir, sem komu við sögu hjá lögreglu í þessum málum, eru á ýmsum aldri og af báðum kynjum.