2 Nóvember 2006 12:00

Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn fyrir þjófnað í miðbæ Reykjavíkur í gær. Maðurinn stal gínu úr verslun en náðist fljótlega. Í fórum hans fannst síðan meira af varningi sem maðurinn átti erfitt með að gera grein fyrir. Aðspurður um gínuna sagðist hann einfaldlega vera kvenmannslaus og átti gínan að bæta úr því.

Annar maður, allnokkuð yngri, var handtekinn við fyrirtæki í austurbænum í nótt og færður á lögreglustöð. Þegar að var komið var maðurinn með áhöld í höndunum að eiga við glugga í húsi fyrirtækisins. Á honum fundust peningar en maðurinn átti erfitt með að gera grein fyrir hvaðan þeir væru komnir. Rannsókn málsins heldur áfram.

Tölvubúnaði var stolið á tveimur stöðum í borginni í gær og þá var enn einn bensínþjófurinn á kreiki. Vinnuvélar var saknað úr austurbænum og seðlaveski hvarf úr skóla í vesturbænum. Öðru veski var svo stolið úr bíl í miðbænum í nótt.