31 Ágúst 2006 12:00
Athugull nágranni bjargaði verðmætum þegar hann sá til innbrotsþjófs í fjölbýlishúsi í gær. Þjófurinn var að setja muni í tösku til að hafa á brott með sér þegar nágranninn varð hans var. Þá kom styggð að þjófinum sem lét sig hverfa og sást hann hlaupa tómhentur á brott.
Í gær var líka tilkynnt um innbrot í þrjá bíla og var verðmætum stolið úr tveimur þeirra. Þá var nokkru stolið af hlutum úr fellihýsi, m.a. gaskútum, rafgeymi og veiðidóti. Svo virðist sem óprúttnir aðilar séu á höttunum eftir gaskútum þessa dagana og er fólk því hvatt til að vera á varðbergi. Best er auðvitað að geyma gaskúta á öruggum stöðum ef því verður við komið.