26 Apríl 2002 12:00

Auður í krafti kvenna

Þriðjudaginn 26. mars 2002 var stúlkum á aldrinum 9-15 ára boðið í heimsókn á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Starfsmönnum embættisins var boðið að taka með sér dætur, frænkur, systur, ömmu- og afastelpur á þessum aldri. Það voru 48 stúlkur sem mættu til leiks. Skipulögð dagskrá var fyrir þær frá kl.09:00-13:00. Boðið var upp á heitt kakó og kex þegar þær komu og ekki að sjá annað en að það mæltist vel fyrir, en allar voru þær að fara snemma á fætur í páskafríinu sínu. Böðvar Bragason, lögreglustjóri, byrjaði síðan dagskrána á því að bjóða stúlkurnar velkomnar með stuttu ávarpi. Að því loknu væru þær fræddar um menntun og störf lögreglumanna. Stúlkurnar fóru síðan um lögreglustöðina í fjórum hópum á fjórar mismunandi stöðvar í fylgd lögreglumanna.

Lögreglumaður sýnir útbúnað sérsveitarmanna.

Stúlkunum var sýnd fangamóttakan.

Fengu þær innsýn í starf rannsóknarlögreglumanns og sýndir farkostir lögreglunnar. Í tæknideild var tekin mynd af hverri og einni stúlku.

Ung dama á bifhjóli.

Eftir að hafa farið á þessar fjórar stöðvar og fræðst um lögreglustarfið var farið með rútu upp í Öskjuhlíð þar sem lögregluhundurinn Skolli sýndi listir sínar. Sett var á svið handtaka þar sem Skolli stöðvaði glæpamann sem leikinn var af lögreglumanna.

Lögreglumaður og Skolli ásamt áhugasömum stúlkum.

Í lokin var stúlkunum, gestgjöfum þeirra og þeim sem tóku þátt í verkefninu boðið upp á pizzu og gos í setustofu lögreglumanna. Lögreglumenn sáu þar um veitingarnar sem runnu ljúft niður. Áður en stúlkurnar héldu heim á leið var þeim afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna og mynd af sér á lögreglubifhjóli.Allar virtust þær vera ánægðar með heimsóknina og mörgum spurningum var svarað. Starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík voru ekki síður ánægðir með hve dagurinn heppnaðist vel og ekki spillti gott veður fyrir. Mjög margir tóku þátt í undirbúningi og dagskránni sjálfri og eiga þeir allir þakkir skildar fyrir. Myndirnar sem hér birtast tók Júlíus Sigurjónsson, ljósmyndari Morgunblaðsins.