4 Febrúar 2008 12:00

Þrír menn hafa verið handteknir vegna ránsins sem var framið í útibúi Glitnis við Lækjargötu í Reykjavík klukkan rúmlega níu í morgun. Þar ógnaði maður starfsfólki bankans með exi og hafði síðan eitthvað af fjármunum á brott með sér. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér lýsingu á ræningjanum og fljótlega var maður handtekinn í Aðalstræti en sá var talinn búa yfir upplýsingum um ránið. Öxin, sem fyrr var getið, fannst ekki löngu síðar í herbergi á nálægu gistiheimili og í framhaldinu voru tveir menn til viðbótar handteknir í Garðabæ. Þeir höfðu áður yfirgefið gistiheimilið og haldið þaðan í bíl en annar mannanna reyndist vera með ránsfenginn í fórum sínum þegar til hans náðist. Lögreglan leitar nú fjórða mannsins í tengslum við rannsókn málsins og veit þegar hver hann er.