11 Apríl 2007 12:00
Sextán ára piltur var handtekinn í vesturhluta borgarinnar í gærkvöld en sá var á stolnum bíl. Í bílnum fannst þýfi úr tveimur innbrotum og var því skilað aftur í réttar hendur. Í framhaldinu voru tveir 15 ára piltar handteknir en þeir eru grunaðir um aðild að innbrotunum. Þremenningarnir hafa allir komið við sögu hjá lögreglu áður. Annar 15 ára piltur var tekinn fyrir verkfæraþjófnað í Kópavogi. Með honum í för voru þrjú önnur ungmenni og voru þau öll flutt á svæðisstöðina á Dalvegi en þar var hringt í forráðamenn þeirra.
Þá var tilkynnt um eitt innbrot í Mosfellsbæ og annað í Breiðholti en bæði málin eru til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.