12 Janúar 2007 12:00
Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í nótt. Fyrst átti í hlut karlmaður á þrítugsaldri en hann var stöðvaður í Grafarvogi. Því næst tók lögreglan tvítugan karlmann í vesturbænum og loks var tæplega fertug kona tekin í miðborginni. Þá stöðvaði lögreglan tvo aðra ökumenn í nótt sem gert var að hætta akstri en báðir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Annar, 18 ára piltur, var stöðvaður í Garðabæ en hinn, 19 ára stúlka, var tekin í Breiðholti.
Fimmtíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest óhöppin voru tilkynnt frá hádegi og fram undir kvöldmat, eða fjörutíu og þrjú. Nokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur en hluti þeirra ók langt yfir leyfðum hámarkshraða. Það vekur nokkra athygli í ljósi þess að akstursskilyrði voru mjög slæm.