1 Apríl 2007 12:00
Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. Tveir voru stöðvaðir í miðborginni. Fyrst kona á sextugsaldri en hún var tekin skömmu fyrir miðnætti og klukkan að ganga þrjú var karlmaður á fertugsaldri stöðvaður fyrir sömu sakir. Þriðji ökumaðurinn var svo tekinn í Kópavogi um fimmleytið í nótt en sá er karlmaður á fimmtugsaldri. Hinn sami má líka búast við sekt fyrir hraðakstur. Til viðbótar stöðvaði lögreglan ungan ökumann sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Sá er 16 ára og vantar enn nokkra mánuði upp á til að fá bílpróf.
Átján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring, nær öll minniháttar. Í fjórum tilfellum var um afstungu að ræða. Lögreglan var víða við hraðamælingar og voru þó nokkrir ökumenn teknir fyrir hraðakstur. Ekki var samt um neinn ofsaakstur að ræða.