22 Desember 2006 12:00

Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í nótt. Fyrst tæplega þrítug kona en akstur hennar var stöðvaður í Grafarvogi. Áður hafði hún ekið á kyrrstæðan bíl. Um svipað leyti var karlmaður á líkum aldri tekinn á Vesturlandsvegi nærri Höfðabakka. Og liðlega klukkustund síðar var tæplega hálffertugur karlmaður stöðvaður í Breiðholti en hann hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Tuttugu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær. Þau voru flest minniháttar en í einu tilviki var sjúkraflutningur. Um var að ræða farþega í bíl sem lenti í árekstri í vesturbænum undir kvöldmat en beita þurfti klippum til að ná honum út.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur. Í þeim hópi var 18 ára stúlka en bíll hennar mældist á 132 km hraða á Vesturlandsvegi við Ártúnsholt en þar er leyfður hámarkshraði 80. Þess má geta að sama stúlka var tekin fyrir hraðakstur í haust en þó ók hún bíl sínum einnig langt yfir leyfðum hámarkshraða.