4 Október 2012 12:00

Tveir karlar og ein kona hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 11. október að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þremenningarnir voru handteknir í gærkvöld í tengslum við aðgerðir lögreglunnar gegn vélhjólagengi. Lögð var fram krafa um gæsluvarðhald yfir einum karli til viðbótar en dómari tók sér frest til morguns til að taka afstöðu til kröfunnar. Níu aðrir voru handteknir og vistaðir í fangageymslum lögreglu í þágu rannsóknarinnar en þeim hefur nú verið sleppt úr haldi.

Aðgerðirnar í gærkvöld voru nokkuð umfangsmiklar en að þeim stóðu lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra, lögreglan á Suðurnesjum og lögreglan í Árnessýslu. Embættin nutu jafnframt aðstoðar starfsmanna tollgæslunnar.