13 September 2006 12:00

Síðdegis í gær var þrisvar ekið á hæðarslár við gatnamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Þetta hefur gerst margoft undanfarnar vikur og mánuði þrátt fyrir að öllum eigi að vera ljóst að þar sé unnið að gerð mislægra gatnamóta. Á þessum stað eru því hæðartakmörk 4,2 metrar. Það er einmitt mesta leyfilega hæð ökutækis samkvæmt reglugerð um stærð og þyngd ökutækja. Til að finna hæð ökutækis skal mæta hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta þess sem hæst stendur.

Umferðin í Reykjavík gekk annars fyrir sig með hefðbundnum hætti í gær. Því miður eru umferðaróhöpp daglegt brauð en blessunarlega voru þau öll minniháttar. Nokkuð ber á því að réttindalausir ökumenn setjist undir stýri og sú var raunin í einni aftanákeyrslunni í gær. Í þokkabót var sá próflausi í órétti. Skýringar ökumanna, sem lenda í umferðaróhöppum, eru margvíslegar. Í gær bar einn þeirra það fyrir sig að hann hefði ruglast á ljósum. Ekki rengir lögreglan það en minnir á að akstur krefst þess að bæði athygli og einbeiting sé í lagi.

Þá var annar réttindalaus ökumaður gripinn í gær. Hann var að keyra bíl kunningja síns. Kunninginn var ölvaður og því ekki fær um að keyra bílinn sjálfur. Próflausi ökumaðurinn, sem vissi mætavel að hann væri réttindalaus, taldi það ekkert tiltökumál að aka bílnum stutta vegalengd. Svo er auðvitað ekki og viðkomandi á nú sekt yfir höfði sér.