1 Júní 2007 12:00
Þrítugur karlmaður var handtekinn á Reykjavíkurflugvelli laust eftir hádegi í dag. Hann var staðinn að veggjakroti utan við farþegaafgreiðsluna við Þorragötu. Maðurinn var færður á lögreglustöð en ekki er vitað hvað honum gekk til.
Veggjakrot er töluvert vandamál á höfuðborgarsvæðinu en það er fátítt að fullorðið fólk sé tekið fyrir slíka iðju. Í nær öllum tilfellum eru gerendur börn og unglingar en þegar til þeirra næst eru þau látin þrífa krotið af ef því verður við komið. Hvort þrítuga veggjakrotaranum verða boðnir sömu kostir skal ósagt látið en í öllu falli á hann sekt yfir höfði sér.