20 Október 2006 12:00

Þrjú óskyld fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík í gærkvöld og nótt. Í hlut áttu jafnmargir karlmenn á ólíkum aldri en í fórum þeirra fundust ætluð fíkniefni. Einn þessara manna var gripinn á skemmtistað í borginni en á öðrum slíkum stað neitaði liðlega tvítugur karlmaður að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Hann var færður á lögreglustöð.

Þá var þrítugur karlmaður fjarlægður úr bifreið í úthverfi í gærmorgun. Maðurinn var sofandi þegar að var komið en hann gat ekki sýnt fram á að hann hefði rétt til að hvíla sig í bílnum. Og bílar komu við sögu í fleiri málum í gær. Í austurbænum er deilt um notkun á bílastæði við íbúðarhús og þar er ýmsum brögðum beitt. Nýjasta útspilið hjá öðrum deiluaðilanum var að kasta eggjum í bíl hins.