5 Október 2006 12:00
Þrjú innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Tvö eru að mestu upplýst en 17 ára piltur var að verki í þeim báðum. Lögreglan fékk haldgóðar upplýsingar um piltinn um miðjan dag og síðdegis hafði hann gengist við verknaðinum. Hann hefur alloft áður komið við sögu lögreglunnar. Í þriðja innbrotinu var stolið myndavél og tölvubúnaði úr raðhúsi. Rannsókn þess máls heldur áfram.
Þá fannst bíll í gærkvöld sem hafði verið stolið í fyrradag en búið var að skipta um skrásetningarnúmer. Sama bíl var stolið í lok september en hann fannst aftur sl. mánudag, degi áður en honum var stolið öðru sinni.