17 Nóvember 2006 12:00

Nýlegri þvottavél var stolið úr sameign fjölbýlishúss í vesturbænum í gærmorgun. Tjónið er að sjálfsögðu bagalegt en það snertir nokkrar fjölskyldur. Þá var brotist inn í annað hús í vesturbænum og þar var m.a. tölvubúnaður hafður á brott. Í austurbænum var líka brotist inn á tveimur stöðum. Snjóbretta var saknað á öðrum staðnum en á hinum var engu stolið. Úr miðbænum hurfu geislaspilari og geisladiskar úr bíl um miðjan dag.

Lögreglunni bárust tvær tilkynningar um bensínþjófa og kona á miðjum aldri var tekin fyrir þjófnað í verslunarmiðstöð. Tölvu var stolið frá skrifstofu í austurbænum og jakka var stolið frá stofnun um hádegisbilið. Jakkinn komst þó fljótt aftur til skila en sá sem hafði tekið hann ófrjálsri hendi bar við misskilningi.