8 Ágúst 2006 12:00

Umferðareftirlit um verslunarmannahelgina var mjög viðamikið og þar koma þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, að góðu gagni. Þyrlan var notuð við löggæslustörf alla helgina og fór víða um land. Sjónum var einkum beint að umferð um Vesturlandsveg og Suðurlandsveg en einnig að útihátíðarsvæðum. Þyrlunni var t.d. flogið til Akureyrar en þar var mjög mikil umferð um helgina.

Við þetta eftirlit voru höfð afskipti af þó nokkrum ökumönnum sem virtu ekki leyfilegan hámarkshraða. Þá er vitað um tilvik þar sem lögreglumenn úr þyrlunni stöðvuðu för ölvaðs ökumanns. Með þyrlunni gafst líka gott tækifæri til að fylgjast með akstri utan vegar en lögreglumennirnir höfðu einnig afskipti af fólki á fjórhjólum. Ljóst þykir að umferðareftirlit úr lofti hefur mikið forvarnargildi. Ökumenn drógu jafnan úr hraðanum þegar sást til þyrlunnar.

Þyrluflugið um helgina var samstarfsverkefni ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og Landhelgisgæslunnar. Aðilar eru sammála um að vel hafi tekist til.