14 Maí 2020 17:02
Opnuð hefur verið ný tilkynningagátt um öryggisatvik – oryggisatvik.island.is – en gáttin auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að tilkynna um öryggisatvik sem upp kunna að koma í rekstri þeirra. Þar er á einum stað og með samræmdum hætti hægt að tilkynna um öll öryggisatvik og öryggisbresti. Öryggisatvikin geta verið netatvik, tengd netárásum eða netglæpum, en geta einnig orðið með öðrum hætti hvað varðar vernd persónuupplýsinga. Það er mikils hagræðis fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem t.d. kunna að þurfa að tilkynna að stór netinnrás sé hafin, að þurfa ekki að margskrá sömu upplýsingar í mismunandi kerfi.
Gáttin er vistuð á Ísland.is – https://oryggisatvik.island.is – og nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn. Gáttin er samvinnuverkefni Persónuverndar, Póst- og fjarskiptastofnunar/CERT-IS og Lögreglunnar undir forystu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.