12 Desember 2017 13:36

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 734 tilkynningar um hegningarlagabrot í nóvember og fækkaði tilkynningum nokkuð á milli mánaða. Hlutfallslega fækkaði nytjastuldum mest á milli mánaða, eða um rúmlega 50 prósent. Eins fækkaði eignaspjöllum og ölvunarakstursbrotum. Tilkynningum um innbrot fjölgaði mikið í nóvember miðað við meðalfjölda sl. mánuði á undan og hefur innbrotum verið að fjölga töluvert sl. mánuði. Alls bárust 102 tilkynningar um innbrot í nóvember. Hlutfallslega fjölgaði innbrotum í fyrirtæki, stofnanir og verslanir mest miðað við síðustu mánuði á undan. Hins vegar bárust flestar tilkynningar um innbrot á heimili eða einkalóð í nóvember, alls 45 tilkynningar. Tilkynningum um ofbeldisbrot fjölgaði einnig töluvert í nóvember miðað við meðalfjölda síðustu mánuði á undan. Eru tilkynningarnar það sem af er ári orðnar um 15 prósent fleiri en þær voru að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan.