10 Júní 2015 15:48
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí mánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Í maí bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 687 tilkynningar um hegningarlagabrot og er það um níu prósent færri tilkynningar en í apríl. Þar af bárust 330 tilkynningar um þjófnaði, sem er um 17 prósent fækkun á milli mánaða. Lögreglu bárust 22 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í maí. Fjölgar tilkynningum töluvert á milli mánaða og voru um 36 prósent fleiri miðað við meðaltal síðastliðinna 12 mánaða. Lögreglu hafa ekki borist eins margar tilkynningar í einum mánuði síðan í ágúst árið 2013. Athygli vekur að þessi fjölgun átti sér stað áður en vart varð aukinnar umfjöllunar á samfélagsmiðlum. Tilkynningum um kynferðisbrot fækkar um 25 prósent miðað við meðaltal síðastliðinna þriggja ára. Í maí komu upp nokkuð fleiri tilvik þar sem ökumenn voru stöðvaðir vegna ölvunar við akstur og aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna miðað við undanfarna mánuði. Ekki hafa jafn mörg tilvik um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna komið fram síðan í júní í fyrra.