22 Júní 2016 09:58

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Í maí voru skráðar 639 tilkynningar um hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu, sem gerir um 21 tilkynningu um brot á dag. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust nokkuð færri tilkynningar um þjófnaði í maí samanborið við síðustu tvo mánuði á undan. Tilkynningum um allar tegundir þjófnaða fækkaði nema tilkynningum um þjófnað á reiðhjólum sem fjölgaði um 50 prósent. Er því vert að minna eigendur reiðhjóla á að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá reiðhjólum sínum. Það sem af er ári hafa tilkynningar um þjónaði þó verið um 11 prósent færri samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára á undan. Í maí bárust 73 tilkynningar um ofbeldisbrot, en ekki hafa borist jafn fáar tilkynningar í einum mánuði síðan í október 2014.