21 Ágúst 2019 10:57
Skráð voru 725 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júlí og fjölgar þessum brotum lítillega á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlí 2019. Þá kemur fram að á tímabilinu hafi heilt yfir orðið litlar breytingar á fjölda þeirra brota sem horft er sérstaklega til í skýrslunni.
Mikil fjölgun er á skráðum innbrotum á heimili í júlí þegar miðað er við meðalfjölda síðustu 6 mánaða á undan en ef horft er til meðaltals síðustu 12 mánaða eru skráð brot í þessum málaflokki álíka mörg.
Töluverð fjölgun var á tilkynningum um eignaspjöll en tilkynningum fjölgaði um rúm 23% á milli mánaða. Af þeim flokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu var mesta fjölgunin á minniháttar eignaspjöllum.
Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og fóru úr 155 brotum í 118 brot. Engin stórfelld fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í júlí.
Heilt yfir fækkaði tilkynningum um þjófnað á milli mánaða en þó ber að nefna að tilkynningum um þjófnað á farsímum fjölgaði nokkuð á milli mánaða. Lögreglan vill því nota tækifærið og benda fólki á óskilamunasíðu lögreglunnar inná www.logreglan.is en þar setur lögreglan meðal annars inn myndir af farsímum sem hafa komið í leitirnar.