19 Febrúar 2019 11:14
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir janúarmánuð 2019 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Skráð voru 568 hegningarlagabrot í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í janúar sl. Hegningarlagabrotum fækkaði töluvert miðað við meðalfjölda síðastliðna sex og 12 mánuði á undan.
Heilt yfir fækkaði tilkynningum í þeim brotaflokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu miðað við fjölda síðustu sex og 12 mánuði á undan. Til að mynda fækkaði tilkynningum um þjófnaði fyrir utan þjófnað á farsímum sem fjölgaði lítillega á milli mánaða. Ekki hafa borist jafn fáar tilkynningar um þjófnaði frá því að samræmdar skráningar hjá lögreglu hófust árið 1999. Tilkynningum um innbrot fækkaði á allar tegundir vettvanga nema í fyrirtæki og stofnanir. Tilkynntum ofbeldisbrotum fækkaði einnig í janúar miðað við síðustu mánuði á undan, sem og ofbeldi gagnvart lögreglumönnum, kynferðisbrotum, eignaspjöllum og ölvun við akstur. Tilkynningum um nytjastuld vélknúinna farartækja fjölgaði hins vegar tölvuert í janúar og ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um nytjastuld á einum mánuði síðan í maí 2018.