18 Febrúar 2016 14:30

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir janúarmánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 658 tilkynningar um hegningarlagabrot í janúar, sem gerir um 21 tilkynningu á dag. Tilkynnt var um 278 þjófnaði sem eru um 42 prósent allra tilkynntra hegningarlagabrota í janúar. Þar af voru flestar tilkynningar vegna innbrota, 83 talsins. Tilkynntum innbrotum fækkaði þó lítillega á milli mánaða. Tilkynnt var um 38 prósent fleiri ofbeldisbrot í janúar samanborið við meðaltal fyrir janúarmánaða síðustu þriggja ára. Fjölgunina má að miklu leyti rekja til þess að í janúar var ár liðið frá því að verklagi í heimilisofbeldismálum var breytt. Í kjölfarið fjölgaði tilkynningum um slík mál talsvert hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði einnig töluvert á milli mánaða. Skráðar voru 144 tilkynningar í janúar og hafa ekki verið skráðar fleiri tilkynningar síðan í apríl 2012. Þar af fjölgar tilkynningum um rúðubrot mest, eða um 60 prósent á milli mánaða.