9 Október 2017 13:47

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir septembermánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 874 tilkynningar um hegningarlagabrot í september. Eru það nokkuð fleiri tilkynningar en bárust að meðaltali síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Lögreglunni barst 401 tilkynning um þjófnaði í september og fjölgaði tilkynningum á milli mánaða líkt og í ágúst. Hlutfallslega fjölgaði tilkynningum um hnupl mest eða um 22 prósent, innbrotum og annars konar þjófnuðum fjölgaði um 15 prósent á milli mánaða. Fjölgun hegningarlagabrota í september skýrist hins vegar að miklu leyti af fleiri tilkynningum um eignaspjöll og nytjastuldi í september miðað við mánuðina á undan. Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði um 16 prósent á milli mánaða og nytjastuldum fjölgaði um 11 prósent. Í ljósi fjölgunar á nytjastuldum sl. tvo mánuði vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minna ökumenn á að ganga tryggilega frá ökutækjum sínum, þ.e.a.s. að skilja ökutæki ekki eftir ólæst eða í gangi.