11 Febrúar 2022 08:40

Tilkynnum ofbeldi – munum eftir 112

Umræðan um ofbeldi sem fyrirfinnst víða í íslensku samfélagi er mjög áberandi um þessar mundir. Hún er á köflum hávær, jafnvel óþægileg, en algjörlega nauðsynleg. Tímarnir breytast og mennirnir með, segir einhvers staðar, og það er deginum ljósara. Það sem áður var látið óátalið er ekki látið viðgangast lengur. Me Too byltingin hefur skilað miklu og mun gera áfram. Við getum fullseint þakkað þeim röddum sem hafa komið fram og mikilvægt að nýta byltinguna til breytinga. Viðhorfsbreyting hefur þegar átt sér stað enda getum við öll verið sammála um að ofbeldi, í hvað mynd sem það er, á aldrei að líða.

Lögreglan er kölluð út nær alla daga ársins eftir að ofbeldi hefur átt sér stað. Að takast á við þessi mál er dapurlegt því oftar en ekki eiga margir um mjög sárt að binda. Ýmislegt hefur verið gert til að bæta þjónustuna við þá sem verða fyrir ofbeldi og því skal haldið áfram. Lögreglan hefur gert gangskör að ýmsu í málaflokkum sem snúa að ofbeldi. Þar er nú tekið mun fastar á málum en áður og var full ástæða til.

Mikil umræða um kynferðisbrot hefur verið mikilvæg og gagnleg. Þar hafa þolendur stigið fram og sýnt mikið hugrekki. Frásagnir þeirra hafa ýtt við þjóðinni og þar með réttarvörslukerfinu um að frekari úrbóta sé þörf. Þótt við höfum unnið í að bæta réttarvörslukerfið síðustu ár er það alltaf þannig að við þurfum stöðugt að vera að rýna og gera betur. Mikilvægast í meðferð kynferðisbrota er að huga að kjarnanum sem er málshraðinn, gæði rannsókna og upplýsingar um gang máls. Þá verður ekki litið framhjá því að sönnunarbyrði þessara mála er oft erfið og þó svo að ekki takist að sanna að eitthvað hafi gerst, þýðir það ekki að það hafi ekki gerst. Við gerum okkur grein fyrir því að ákvörðun um að tilkynna brot er erfið og einnig ef málið fær ekki framgang, er það brotaþolum oft sem annað áfall ofan á hitt.

Mikill vilji er hjá lögreglu til þess að stytta málsmeðferðartíma og auka gæði rannsókna enn frekar. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að úrbótum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar rannsóknir kynferðisbrota eru annars vegar. Má þar sérstaklega nefna aukin gæði rannsókna með innleiðingu á svokallaðri rannsóknaráætlun, opnun sérstakrar þjónustugáttar þar sem brotaþolar geta fylgst með máli sínu sem og opnun sérhæfðrar kærumóttöku auk þess sem starfsfólk lögreglu hefur hlotið menntun og þjálfun á þessu sviði. Þörf er á því að efla enn frekar rannsóknir, rannsóknarstuðning og ákæruvald bæði með tilliti til mannafla, þekkingar og tækni. Einnig gæti verið framfaraskref að auka aðild brotaþola að sínu máli og er það í skoðun hjá stjórnvöldum. Það er þó ljóst að forsenda þess að geta tekist á við þessa meinsemd í íslensku samfélagi er að fá þessi mál upp á yfirborðið.

Ég vil því hvetja þá sem verða fyrir ofbeldi að tilkynna um það til lögreglu og minni því á símanúmerið 112. Þar eru neyðarverðir til staðar og aðstoða og leiðbeina um fyrstu viðbrögð. Á 112 deginum þetta árið, föstudaginn 11. febrúar 2022, er sjónum einmitt beint að mikilvægi þess að þolendur ofbeldis hafi strax samband við Neyðarlínuna. Sjá nánar á 112.is og þar eru einnig mikilvægar upplýsingar um ofbeldi.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2022)

Eftir Höllu Bergþóru Björnsdóttur,  lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.