3 Apríl 2018 17:00
Sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða er víða að finna og allir ættu að vita að þau eru ekki ætluð fullfrískum ökumönnum. Samt er það nú svo að einhverjir úr hópi hinna síðarnefndu leggja stundum í þessi sérmerktu stæði þrátt fyrir að vita betur. Einn slíkur var staðinn að verki í borginni um helgina, en sá lagði í sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða og kærði sig kollóttan þegar lögreglumaður dró fram sektarbókina vegna athæfisins. Ökumanninum fannst afskiptin með öllu óþörf og fullyrti að það væri nú enginn hreyfihamlaður ökumaður á ferðinni í hverfinu í leit að bílastæði á þessum tíma dags, en þetta var um hádegisbil án þess að það skipti einhverju máli. Ökumaðurinn beit svo höfuðið af skömminni þegar hann tók við sektarmiðanum og sagðist ekki hika við að gera þetta aftur!