9 September 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir þeim góðfúslegu tilmælum til ökumanna sem eiga leið um Laugardalinn að nýta þau bílastæði sem þar eru í stað þess að leggja ólöglega á eða við götur á svæðinu. Þetta er nefnt hér sérstaklega vegna landsleiks Íslendinga og Georgíumanna í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvellinum í kvöld. Reynsla síðustu ára sýnir að bílastæði við völlinn eru ekki fullnýtt þegar ýmsir stórviðburðir fara þar fram. Þess í stað hafa margir lagt það í vana sinn að leggja ólöglega á Reykjavegi og Engjavegi svo aðeins tvær götur séu nefndar. Sömuleiðis er iðulega lagt ólöglega á ýmis grassvæði í Laugardalnum. Lögreglan ítrekar því tilmæli sín til ökumanna og hvetur þá til að nýta bílastæðin til fulls. Að öðrum kosti mega ökumenn búast við sektum vegna stöðubrota en gjaldið, 2500 kr., rennur í Bílastæðasjóð.
Þess má geta að mikið var um stöðubrot við Laugardalsvöllinn og í nágrenni hans þegar landsleikur fór þar fram síðasta laugardag. Samt voru bílastæði á svæðinu ekki fullnýtt. M.a. bílastæði sunnanmegin á milli vesturstúku vallarins og Reykjavegar og sömuleiðis á bak við Laugardalshöllina. Á þessum tveimur stöðum er pláss fyrir nokkur hundruð bíla svo dæmi séu tekin.