9 Ágúst 2019 17:03

Að venju verður ýmislegt um að vera á höfuðborgarsvæðinu um helgina, en hætt er við að margir leggi leið sína á tónleika enska tónlistarmannsins Ed Sheeran á Laugardalsvelli. Kappinn heldur tvenna tónleika, þá fyrri á laugardagskvöld og þá seinni á sunnudagskvöld. Lögreglan verður með töluverðan viðbúnað vegna tónleikanna, en sérstök athygli er vakin á banni við því að fljúga drónum (flygildum) á svæðinu og í nágrenni þess en það tekur gildi kl. 13 á morgun, laugardaginn 10. ágúst, og stendur til miðnættis sunnudagskvöldið 11. ágúst. Bannið afmarkast af Kringlumýrarbraut, Sundlaugavegi, Laugarásvegi, Holtavegi, Engjavegi, Grensásvegi, Ármúla, Hallarmúla og Suðurlandsbraut, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Fyrir áhugasama um reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara vísast til heimasíðu Stjórnartíðinda, og þá ekki síst 12. gr. reglugerðarinnar.