17 Janúar 2007 12:00
Tíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Langflestir þeirra óku á yfir 100 km hraða. Þá stöðvaði lögreglan nokkra ökumenn sem ýmist virtu ekki stöðvunarskyldu eða óku gegn rauðu ljósi. Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur en það var kona á þrítugsaldri. Akstur hennar var stöðvaður í miðborginni í nótt.
Tuttugu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt á síðasta sólarhring, flest minniháttar. Tveir voru fluttir á slysadeild eftir tveggja bíla árekstur á Sæbraut í hádeginu í gær. Þá var bíl ekið á strætisvagn á Laugavegi en til að bæta gráu ofan á svart reyndist tjónvaldurinn, karlmaður á þrítugsaldri, aldrei hafa öðlast ökuréttindi.