20 Júlí 2006 12:00

Tíu ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Hinir brotlegu eru á ýmsum aldri. Sá yngsti undir tvítugu en sá elsti á sjötugsaldri. Því miður eru þeir eldri og reyndari ekki alltaf góðar fyrirmyndir í umferðinni.

Lögreglan fylgist einnig grannt með bílbeltanotkun en fjórir ökumenn hirtu ekki um að spenna beltin í gær. Þá hefur borið á því að ökumenn gleyma að hafa ökuskírteini meðferðis og í einstaka tilfellum eru þau útrunnin. Slíkt er að sjálfsögðu ekki liðið.

Lögreglan veitir líka símanotkun ökumanna sérstaka athygli. Það er skilyrðislaus krafa að ökumenn noti handfrjálsan búnað þegar í umferðina er komið. Í gær stöðvaði lögreglan tólf ökumenn sem virtu ekki þessa reglu.