10 Nóvember 2006 12:00
Tuttugu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær en það er ívið meira en undanfarna daga. Í þremur tilfellum varð slys á fólki, minniháttar þó. Í einu tilviki var keyrt á gangandi vegfaranda en sá, 8 ára piltur, slapp með skrekkinn og meiddist óverulega.
Tólf ökumenn voru stöðvaðir fyrir að vanrækja merkjagjöf. Þ.e. þeir gáfu ekki stefnuljós en þess má geta að lögregluliðin á Suðvesturlandi fylgjast nú grannt með að stefnumerkjagjöfin sé í lagi. Einn þessara ökumanna var heldur ekki í bílbelti né hafði hann ökuskírteinið meðferðis. Nokkrir aðrir voru teknir fyrir að nota ekki bílbelti og eins það að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í íbúðargötum en þeir óku allir á tæplega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Sextugur karlmaður var tekinn fyrir ölvunarakstur í austurbænum rétt undir hádegi og 17 ára piltur var stöðvaður á bifhjóli í úthverfi um miðjan dag. Sá hafði ekki ökuleyfi. Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi í gær.