4 Desember 2006 12:00

Tólf ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina og einn var stöðvaður fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Allt voru þetta karlmenn og flestir á þrítugs- og fertugsaldri. Yngsti ökumaðurinn í þessum hópi er 17 ára en sá elsti er á tíræðisaldri. Þá stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Sex ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fimm fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þá voru allmargir teknir fyrir hraðakstur.

Fimmtíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt um helgina. Flest voru þau minniháttar að undanskildu hörmulegu bílslysi á Suðurlandsvegi á laugardag en lögreglan í Reykjavík sinnti því útkalli. Í umræddu slysi létust tveir eins og fram hefur komið. Í umferðarslysum innan borgarmarkanna var sjúkraflutningur í einu tilviki en nokkrir leituðu sér sjálfir aðstoðar á slysadeild.