15 Desember 2006 12:00
Tólf ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en það er óvenju mikið. Þetta voru tíu karlmenn og tvær konur. Karlarnir eru á ýmsum aldri, sá yngsti 17 ára en sá elsti rúmlega hálfáttræður. Konurnar eru báðar á fertugsaldri. Þrír þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptur ökuleyfi en sá fjórði í hópnum var jafnframt tekinn fyrir ölvunarakstur fyrr í vikunni.
Þá tók lögreglan sex aðra ökumenn sem höfðu sömuleiðis þegar verið sviptir ökuleyfi. Fimm aðrir ökumenn sem lögreglan stöðvaði reyndust ekki hafa endurnýjað ökuskírteinin og einn til viðbótar hafði það ekki meðferðis. Ökumenn eru hvattir til að kippa þessu í lag en hjá sumum er kæruleysið hreint ótrúlegt. Einn sem var tekinn fyrir þessar sakir í gær var þess meðvitaður að honum hefði borið að endurnýja ökuskírteinið fyrir hálfum öðrum áratug.
Lítið bar á hraðakstri í gær en svo virðist sem dregið hafi úr hraðanum undanfarna daga. Þess hafa m.a. sést merki á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi og einnig innan borgarmarkanna. Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær, langflest minniháttar. Í einu tilviki var fólk flutt á slysadeild.