17 Október 2019 11:02

Skráð voru 844 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í ágúst og fækkaði þessum brotum nokkuð á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir september 2019.

Skráðum innbrotum fækkaði á milli mánaða en þar af var mesta fækkunin á skráðum innbrotum á heimili. Heilt yfir hafa borist um fjögur prósent fleiri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tíma sl. þrjú ár á undan.

Skráðum fíkniefnabrotum hefur farið fækkandi síðustu þrjá mánuði og fóru þau til að mynda úr 104 brotum í ágúst í 92 brot í september. Eitt stórfellt fíkniefnabrot var skráð á höfuðborgarsvæðinu í september. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fækkaði einnig á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Skráð voru 864 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum) í september. Á milli mánaða fækkaði umferðalagabrotum um tæp 27% en töluverð fækkun var á skráðum umferðalagabrotum miðað við útreiknuð neðri mörk fyrir síðustu sex mánuði á undan.

Líkt og í ágúst fjölgaði tilkynntum ofbeldisbrotum miðað við útreiknuð efri mörk fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Vert er að taka fram að fjöldi tilkynntra brota fækkar þó á milli mánaða úr 122 tilkynningum í 114 tilkynningar. Þegar fjölgunin er greind niður á svæði sést að mesta fjölgunin á sér stað í íbúahverfum og eru þetta í flestum tilfellum tilkynningar um heimilisofbeldi.

Árið 2015 undirritaði lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sérstakan samstarfssamningur við sveitarfélögin um átak gegn heimilisofbeldi. Í kjölfarið var ráðist í framkvæmdir á verkreglum sem eiga að tryggja markvissari viðbrögð og úrræði gegn ofbeldi á heimilum.