14 September 2018 16:33

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágústmánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst 781 tilkynning um hegningarlagabrot í ágúst. Alls bárust 70 tilkynningar um innbrot í ágúst, sem eru nokkuð færri tilkynningar en síðustu mánuði á undan. Öllum tegundum innbrota fækkaði. Eins fækkaði ofbeldisbrotum gegn lögreglu og fíkniefnabrotum í ágúst miðað við fjölda þeirra síðustu mánuðina á undan. Í ágúst voru skráð 1.460 umferðalagabrot (að frátöldum þeim hraðakstursbrotum sem náðust á hraðamyndavélar í embættinu). Umferðalagabrotum fjölgaði þó nokkuð og hafa ekki verið eins mörg í einum mánuði frá því í október árið 2013 þegar skráð voru 1.572 brot. Þar af fjölgaði brotum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ölvunarakstursbrotum mikið. Það sem af er ári hafa verið skráð 64 prósent fleiri brot vegna akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna og um 45 prósent fleiri ölvunarakstursbrot en að meðaltali sama tímabil síðustu þrjú ár á undan.